Um

Ég heiti Helga Guðrún Gunnarsdóttir. Ég lauk BS námi í íþrótta- og heilsufræði árið 2015 frá Háskóla Íslands og fékk skírteinið nánast á 60 ára afmælisdegi mínum. Ég er stolt af því að vera elsti nemandi, sem útskrifast hefur í faginu frá HÍ, sem starfar við fagið. Það sannar, í okkar æskudýrkandi samfélagi, að það er ekki allt búið um 45 ára aldurinn :)
Þá hef ég árið 2018 lokið viðurkenndu námi í markþjálfun hjá Evolvia ehf.  með áherslu á heilsumarkþjálfun.
Ennfremur hef ég lokið leiðbeinendanámi hjá Ástu Valdimarsdóttur í hláturjóga og nýti aðferðina í þjálfuninni. Á Fésbókinni held ég úti síðu sem heitir Þjálfun í vatni. Þar má fylgjast með viðburðum og sjá stemningsmyndir.

  • Ég fór strax að þjálfa opinberlega við lok háskólanámsins og stofnaði fljótlega fyrirtækið Ræs ehf. Sem stendur er eg eini starfsmaðurinn hjá fyrirtækinu.

  • Ég hef sótt námskeið til Bandaríkjanna fyrir þjálfara í vatni og kynni mér helstu nýjungar í þjálfuninni. Ég er meðlimur í alþjóðasamtökum þjálfara í vatni, AEA, (Aquatic Exercise Association).  Til að halda mér á tánum sæki ég fyrirlestra og námskeið um andlega og líkamlega heilsu.

  • Markhópurinn er fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur, 45+, en þá er heldur ekki til setunnar boðið að sporna við öldrunarferlinu með markvissri þjálfun sem eflir og styrkir líkama og sál.

  • Æfingar í vatni eru mjög góður kostur þegar kemur að líkamsrækt og eitt af markmiðum mínum er að fjölga iðkendum sem kjósa að æfa í vatni og gera líkamsrækt að lífsstíl.

  • Markþjálfunarnámið hefur eflt mig sem einstakling og gert mig að betri þjálfara. Það er ekki einasta að halda líkamanum „uppfærðum" heldur þarf að koma auga á og yfirstíga hindranir, með því virkjast og eflist innri styrkur.
  • Gildi Ræs eru: Gleði - Vinátta - Framtíð. Takmarkið er að auka leikgleði iðkenda, stofna til nýrra vináttubanda og auka gæði daglegs lífs til frambúðar.