BBC á bakkanum

Stjörnurnar Sheila og Rusti lágu ekki á liði sínu í æfingunum og skemmtu sér hið besta. (Ljósmynd / …
Stjörnurnar Sheila og Rusti lágu ekki á liði sínu í æfingunum og skemmtu sér hið besta. (Ljósmynd / Lísbet Grímsdóttir)

Breska sjónvarpsstöðin BBC var hér á landi í júlí  við tökur á þætti í þáttaröðina The Real Marigold on Tour, sem slegið hefur í gegn á BBC-Two. Þættirnir fjalla um þekkta miðaldra Breta, tvo karla og tvær konur, sem upplifa á eigin skinni hvernig er fyrir hraust fólk að vera komið á eftirlaun í mismunandi löndum, hvað stendur til boða. Að þessu sinni voru aðstæður kannaðar hérlendis.

Meðal þess sem þeir höfðu áhuga á var að fara í þjálfun í vatni til Helgu Guðrúnar Gunnarsdóttur íþrótta- og heilsufræðings í Sundlaug Kópavogs, en hún sér um þjálfun eldri aldurshópa í lauginni. „Já það var mikið fjör í lauginni sl. sunnudag,” segir Helga Guðrún aðspurð um viðburðinn, „þrátt fyrir sumarfrí og annir mættu yfir 100 manns í tímann, sem er alveg ótrúlega flott.”

Í byrjun maí var haft samband við Helgu Guðrúnu og í lok maí var ákvörðun tekin um að bjóða Bretunum að koma í þjálfun í vatni. „Starfsfólk frá sjónvarpssöðinni kom og tók upp einn tíma með okkur. Þeim leist mjög vel á stemminguna og óskuðu síðan eftir að koma með Bretana í júlí. Ég hef aldrei séð þessa þætti en miðað við viðfangsefnið og áhorfið virðast þeir vera mjög skemmtilegir, það er virkilega gaman að sjá hvernig er að verða eldri borgari í mismunandi löndum. Þátturinn sem nú er í tökum verður 60 mínútna langur og fjallar um Ísland. Bretarnir fengu að prófa ýmislegt, m.a. syngja í karlakór á Húsavík, hvalaskoðun, golf og ballett.

Konurnar tvær, tóku þátt í æfingunum, en þær eru báðar vel þekktar. Það eru þær Sheila Fergusson kyntáknið og söngkonan úr The Three Degrees tríóinu frá 6. og 7. áratugnum og hinn kunni sjónvarpskokkur á BBC, Rustie Lee, sem jafnframt er leik- og söngkona. „Þær voru ekki sérstaklega kynntar fyrir mér með nafni. Svo í æfingunum, þegar ég hrópaði hv...íla, þá hrópaði Sheila whatttt á móti. Þetta gekk svona í einhvern tíma þar til leikstjórinn kom og hvíslaði að mér að hún héti Sheila, og væri að misskilja mig. Hún hélt ég væri að leiðrétta sig. Sennilega erum við farnar að heyra illa, enda miðaldra báðar tvær,” sagði Helga Guðrún og hafði gaman af.

Þátturinn verður sýndur í nóvember. „Þá ætlum við að gera okkur glaðan dag, koma saman í sal og horfa á okkur í beinni, en við vitum ekki hvað mikið verður notað af þessu efni með okkur. Þar liggur næsti spenningur!”

Skoða myndir